Lög

Lög Foreldraráðs Hafnarfjarðar

1. gr. Heiti og varnarþing

Félagið heitir Foreldraráð Hafnarfjarðar. Heimili þess og varnarþing er í Hafnarfirði.

2.gr. Hlutverk og markmið

Foreldraráð Hafnarfjarðar er samráðsvettvangur og málsvari foreldra grunnskólabarna í Hafnarfirði. Hlutverk Foreldaráðs Hafnarfjarðar er að vinna að sameiginlegum málefnum skólanna og gefa umsagnir um ýmis mál er varða skóla- og fjölskyldumál. Foreldraráð vinnur í nánu samstarfi við foreldrafélögin í öllum grunnskólum Hafnarfjarðar.

Markmið Foreldraráðs Hafnarfjarðar eru eftirfarandi:

  • standa vörð um réttindi barna til menntunnar og þroska
  • beita sér fyrir auknum áhrifum og þátttöku foreldra í skóla- og frístundastarfi
  • stuðla að skipulögðu samstarfi aðildarfélaganna og vera tengiliður við önnur heildarsamtök foreldra
  • vera sameiginlegur málsvari gagnvart sveitarfélagi og stjórnvöldum

3. gr. Skipan

Aðild að félaginu eiga foreldrafélög allra grunnskóla í Hafnarfirði, sem tilefna hvert um sig tvo fulltrúa til setu í ráðinu auk eins varamanns.

4. gr. Aðalfundur

Aðalfund skal halda fyrir 1. október ár hvert. Boða skal til fundarins með minnst tveggja vikna fyrirvara. Rétt til setu á aðalfundi hafa allir kjörnir stjórnarmenn aðildarfélaga ráðsins, eða allt að 10 fulltrúar frá hverju félagi, sem hafa atkvæðisrétt.

5. gr. Dagskrá aðalfundar

1. Kosning fundarstjóra og ritara
2. Skýrsla stjórnar lögð fram
3. Ársreikningar
4. Skýrsla og ársreikningar lagðir fram til samþykktar
5. Starfs- og fjárhagsáætlun
6. Ákvörðun árgjalds
7. Kosningar

  • Formanns
  • Ritara og gjaldkera
  • Áheyrnafulltrúa í fræðsluráð Hafnarfjarðar og í íþrótta- og tómstundanefnd og auk varmanna þeirra
  • Fulltrúa í fulltrúaráð Heimilis og skóla og varamanns.
  • Tveggja skoðunarmanna reikninga

8. Lagabreytingar
9. Önnur mál

6. gr. Hlutverk fulltrúa í ráðum og nefndum

Áheyrnarfulltrúar sem sitja fundi fræðsluráðs Hafnarfjarðar og íþrótta- og tómstundanefndar eða fulltrúar ráðsins í öðrum nefndum tala þar máli Foreldraráðs Hafnarfjarðar og skulu gæta hagsmuna nemenda og foreldra í grunnskólum Hafnarfjarðar. Fulltrúar gera foreldraráði grein fyrir málum ræddum á þeim vettvangi. Ef áheyrnarfulltrúi leggur fram tillögu eða bókun sem ekki hefur verið samþykkt í foreldraráði, þá skal hún lögð fram með fyrirvara um samþykki. Ritari heldur utan um fundargerðir og sér til þess að umsagnir og bókanir séu birtar á aðgengilegan hátt.

7. gr. Trúnaðarskylda

Fulltrúar í Foreldraráði Hafnarfjarðar skulu gæta þagmælsku og trúnaðar fái þeir upplýsingar um viðkvæm persónuleg málefni. Trúnaðarskylda þessi helst eftir að fulltrúi lætur af störfum í Foreldraráði.

8. gr. Lagabreytingar

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi. Breytingartillögur þurfa að berast formanni eða ritara eigi síðar en 8 dögum fyrir auglýstan aðalfund og skulu þær vera aðgengilegar aðildarfélögum fram að aðalfundi. Ákvörðun um slit félagsins og ráðstöfun eigna þess verður tekin með auknum meirihluta á aðalfundi.

Lög þessi skulu nú þegar taka gildi